Færsluflokkur: Bloggar

Eiga alla mína aðdáun

Ég undra mig sífellt á hve sumir eru viljugir að fórna sér fyrir góðan málstað, ..en segi sem betur fer nenna þessir "sumir". Vildi að ég hefði þessa elju að liggja úti í íslenskri náttúru henni til bjargar. Undra mig þó enn meira á hve margir " gera grín" að þessum baráttujöxlum sem hugsa ekki með dollaramerkin í augunum eins og flestir gagnrýnendur þeirra. Ef fólk velur lifandi fjársjóði landsins fram yfir fjársjóði bankanna ( sem eru fallvaltari en sjálf fallvötnin ) fellur það ekki inn í "normið" og "normala" fólkið dæmir það gjarnan "ónormalt" ...jafnvel hættulegt ! ....Hvað er að óttast ?
Já "það er svo undarlegt með þetta líf..það er svo skrýtið, skrýtið " ...hve margir sem vinna að því að vernda og hlúa að lífinu sjálfu uppskera vanvirðingu í reynd... sjáum það t.d. á starfslaunum ljósmæðra.
mbl.is Styðja Saving Iceland á hljóðlátan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Home sweet home !!!

Dásamleg tilfinning, en voða skrýtin að koma heim ...allt í einu minnkað um 10 cm! Millilenti í Köben og var þar tekið fagnandi á flugvellinum af Lóló vinkonu ....með danska fánann, í jólarauðum gúmmistígvélum og blöðrur í stíl - komin alla leið frá Íslandi að fylgja mér síðasta spölinn. ...enda ekki víst ég hefði ratað. Dvöldum í Baunalandi í 4 daga og gerðum ýmislegt skemmtilegt sem best er að þegja yfir. Ekki var verra að lenda hér ..blómvöndur og RAUÐUR DREGILL á vellinum!!!...og ÉG átti að labba eftir honum... sem bý bara í Skipasundi en ekki á Bessastöðum...aldrei fílað mig svona merkilega fyrr !! Ég verð nú að segja þó hljómi væmið ..að EKKERT er eins dýrmætt og ástvinir manns !

Ég vil þakka öllum kærlega fyrir sem hafa fylgst með mér út í Japan gegnum bloggið mitt....það er mér ómetanlegt.

...og þá er að vinda sér í næstu skemmtilegheit ... glugga í póst síðustu þrjá mánuða ...brosandi !!

See you...Helga




Á jörðu sem og himni

Hvað er fullkomnara en að sitja með vel skreyttan "kaffi latte" á Kaffitári í Kringlunni ?....Alls ekkert !...nema þá að sitja á 53 hæð og skoða útsýnið yfir Tokyobæ !...sem ég gerði í gær, og er full ástæða til að öfundast út í það.  Fór sem sagt til "himnaríkis" og það lifandi og án þess að vera "þæg"... borgaði bara 1500 yen!... allt orðið falt fyrir peninga í dag Halo Já nú er mín  komin til byggða og búin að þvælast um Tokyo í 2 daga í roki og rigningu ...allir hausar hér með regnhlífar á lofti..jafnt jakkaklæddir menn (sem eru hér í massavís  ) sem og mestu töffarar ..hrædd um að sumir heima myndu nú telja það pempíulegt. Byrjaði fyrsta daginn á að heimsækja okkar íslenska sendiráð ..og sé ekki eftir því. Þar var ég trakteruð með kaffi og þessari líka fínu súkkulaðiköku ... Benedikt ... einn af staffinu, átti afmæli !! ....Loksins gat tungan mín tekið til starfa á ný og kroppurinn hvílt sig enda orðinn mikið þreyttur á túlkunarjobbinu og farin að láta á sjá !  Benedikt er búin að vera hér í 5 ár (að mig minnir) og smellpassar hér inn. Þjónustulundin og greiðasemin yndisleg...fylgdi mér út í strætó og næstum því búin að borga strætómiðann til himnaríkis !! ...sannur engill ! Mæli með Tokyo fyrir matarfíkla...hér úir og grúir af ofsagirnilegum "tilbúnum mat" upp  um allar götur.. svo slefan lekur. Restaurantar stilla matnum út í gluggana, svo þeir sem kunna ekki táknmál litla fólksins benda bara á flottasta diskinn. Og ekki nóg með það ...í basementum (enn að sletta) stórmagasína eru "foodgarden"...sem gera hvern fíkil vitstola..langar að pota og smakka á öllu (nema oktabusinum ljóta) ..tilbúnir heitir réttir í löngum bunum , svo ekki sé minnst á flotta lúkkið á sætakökum og súkkulaði Tounge Fínu verslanirnar hér í Ginsa hverfinu mínu ...(dýrasta hverfið)...eru líka dásamlega bilaðar. Við dyrnar standa jakkaklæddir menn með hvíta hanska , bugta sig ...hleypa þér brosandi inn...og út aftur....brosandi..  þó þú hafir ekki keypt neitt. Gat nefnilega ekkert verslað þar sem hvert sæti var skipað í töskunni. Sá þó eina lyklakippu á 35.000 yen ...næstum því búin að versla ... en nægjusemin ( og góð bæn ) sem ég lærði í sveitinni forðaði mér frá freistni. Tær hafa sín takmörk eins og annað lifandi og er þær voru farnir að kjökra með illa lyktandi tárum ..var mér skyndilega kippt inn af götunni ..inn í annan heim !!...lögð þar til í "leysiboy" ...einn af mörgum í langri röð með úrvinda tásum af götunni. Þarna fékk ég fótanudd í 25 mín á 2600 yen og hálsnudd í 5 min á 1500 yen....í rökkri með litlum ljúfum manni ..brosandi að gæla við sig...ALSÆLA !! Svona götunuddstofur í japanise style eru algengari en  sjoppur á Íslandi. ...og þó ?

Skrýtin tilfinning að vera að yfirgefa land litla fólksins. Tek þó með mér "matcha"...græna púðrið og það sem til þarf til tegerðar s.s. kimóna, teebowl (ansi stóra), bambusteskeið og bambuspísk...allt dásamleg falleg hönnun. Mun píska upp á púðrinu fyrir gesti og gangandi í Sipasundinu mína góða ...sem mig hlakkar ægilega mikið til að kúra í eftir langa en skemmtilega útilegu (:

Verð í Köben í 4 nætur og kem til "hins ylhýra" 19 maí. Aldrei að vita nema ég sendi áfram skemmtilegar myndir frá landi litla fólksins.

Oyasumi nasaii

 

 


Allt tekur enda

Á morgun líkur dvöl minni hér ..Tveir og hálfur mánuður að baki á The Shigaraki Center Cultural Park...mæli með staðnum. Var leist út með plaggi sem ég ramma inn hið fyrsta. Næstum því orðin fræg... fréttablað eitt mætti um daginn og myndaði mig við skítuga vinnuborðið mitt ásamt kollegum mínum. Ekki hugmynd þó hvort það hefur verið birtingarhæft .  Hef hvorki orðið mér né þjóð minni til skammar að ég held. Amk. virist áhugi mikill að heimsækja landið okkur ylhýra eftir kynningu mína  sem ég hélt um daginn fyrir nærri 100 manns ! Sýndi að sjálfsögðu myndir af fossum,  jöklum og norðurljósum. Taldi upp það sem við eigum sameiginlegt með Japan s.s. kúluskitinn (í Mývatni) eldfjöll, jarðskjálfta og hot springs !!Einnig tókst mér að snara fram  mynd af nokkrum bleikum blómum í hrjóstugum jarðvegi á Snæfellsnesi...okkar "cherryblossoms" ...gerði góða lukku og margir á leið í heimsókn!

Sama dag var opnun á ansi forvitnilegri líffærasýningu sem Trees frá Belgíu átti heiðurinn að með dyggri aðstoð síns ástkæra eiginmanns. Ég fékk að gjöf nýjar tær ..bara þrjár og ansi gráar að vísu, en gætu komið sér vel er ég fer að þramma um í Tokyo næstu daga. Að kveldi sýningardagsins fórum við á djammið með japanise style !! ...mikið fjör ..mikið gaman (: 

Kveð að sinni

Oyasumi nasaii

 


Skúringakallar og skógarferð

Já ég hef nú mikið dáðst að the japanise males ...eru meira en fullkomnir hér á bæ svo ekki sé nú meira sagt. Kl 8 hvern morgun eru þeir pungsveittir og hamast við að SKÚRA  stéttina mína ÚTI !!..áður en ég stíg á hana fæti..hugsa sér !! þjóna mér þó ekki til borðs og sængur enda holan mín læst allar nætur ...öryggið á oddinn sagði nunnan í den og er ég henni sammála.

Mín ákvað í dag að hjóla út í skóg... grandalaus eins  og Rauðhetta forðum...Langaði að taka myndir af Temple einu merkilegu sem tileinkað er  börnum er látist hafa í móðurkviði . Sá það í gær er einn sjeffinn hér ók mér þangað fyrirvaralaust, vitandi það að ég er ljósmóðir og ekki nóg með það , hef verið að framleiða einhverskonar leg hér og fylgihluti í 2 mánuði ! Bölvaði mikið í gær því ég var ekki með kameruna.  Á leiðinni bauð hann mér heim á bæinn sinn  í tesopa, en ekki hvað !. Gasalega huggulegt og skemmtilegt ... stirður að bögglast á kodda á gólfinu í diningroominu, og upplifa sig amk. 74 en vera bara 47. Reyndi þó að sýnast afslöppuð er ég renndi Shigaraki teinu niður með ægilega fínum súkkulaðimola sem frúin hans uppfartaði á tannstöngli. Var siðan leist út með gjöf ... og  skulda ég þeim því eina .. regla nr 1 í landi litla fólksins ;  æ skal gjalda  gjöf fyrir gjöf ! Jæja alla vegna fannst mér ég þurfa að ná myndum af þessu temple sem var yfirfullt af styttubörnum klæddum í fjölbreytilegar svuntur ...og með rellur eins og íslensku börnin á sautjándanum! Sýndi geysilegan kjark að leggja út í skóginn því sögur hafði ég heyrt af ákveðnum kvikindum sem kallast sn...segi ekki meir Crying sem sóluðu sig  á stéttunum við stytturnar. En eins og hjá Rauðhettu þá var hættan ekki augljós ..sá enga sn. ....nema á einum krúttlegum male sem var að renna upp klaufinni eftir losun og hélt að enginn sæi til. En litli vinurinn virtist bara sætur og meinlaus og ég varð ekkert hrædd !

Oyasumi nasaii 


Á deiti með japanise guy

Já það var þá aldrei að einhver færi ekki að gera hosur sínar grænar ...enda allt hér í stíl við græna teið .  Ónefndur japanskur gaur kíkti á "sjóið" mitt og var svo hrifinn að hann bauð mér í sightseen í dag til næsta bæjar... að skoða meira potteri !!... og ég gjörsamlega að drukkna í því hér í bæ !...Þáði þó boðið vegna leiða og vonaði bara að maðurinn héldi sér á mottunni ...sem  var ansi skítug í bíldruslunni hans. Fengum okkur kaffi á leiðinni ...úr sjálfsala -  ekki rómantískt og eins gott. Svo kveikti hann í rettu og mín fékk hóstakast á sama augnabliki þar sem kaffið skolaðist eitthvað öfugt niður ...greyið misskildi og fleygði rettunni með hraði út um gluggann . Gaurinn bara voða kurteis og kunni einstaka orð í ensku svo við gátum brosað til skiptis og stundum jafnvel saman. Útlitið "virtist" alveg þokkalegt en ég gætti þess að geyma gleraugun í veskinu allan tímann !....en hláturinn  - eins og í Eiríki Fjalar eftir lélegan brandara  !!!...snörlandi á innsoginu "með látum" ...ég bað til guðs um að ég gæti leynt óþoli  mínu ( vill ekki segja ímugust) svo vel færi og gefið manninum gleðilegan dag í anda kærleika og umburðalyndis....tók virkilega á enda lélegur leikari á ferð. Leið verr er hann fór að kaupa gjafir handa mér í "potteríunum"... fór í kleinu og brosið fraus Crying  Síðan vildi hann bjóða mér í "food" sem ég var nú ekkert sérlega æst í og bað því guð um að redda mér !!..sem  hann og gerði , því við reyndum 4 restauranta  - allir lokaðir !!- miracles can happen ! Wink

Eftir þessa frásögn kann ég ekki við að senda mynd af þessum annars yndislega manni ..ef einhver ykkar skildi þekkja hann.

 


...So let´s stick together !

Opnaði sýningu mína "...So let´s stick together" í gær með kampavíni og látum.  Gestafjöldinn  sló öll met enda góðar veitingar í boði...íslenskur harðfiskur, vínber og súkkulaði...útlenskt þó. Í tilefni dagsins fór mín í sparigallann ..."þykistukimóna" - íslenska hönnun í japönskum stíl ! Veðrið var þokkalegt ... eins gott því celebrationin var úti undir beru lofti þó verkin væru innandyra. Jafnvel "aðalbossinn " á staðnum mætti í sparigallanum og brosti mikið ...hvað sem það nú þýðir, en hann talar ekki stakt orð utan táknmálsins.

Hefði nú gjarna viljað hafa íslenska vini og vandamenn ... skil illa í þeim að mæta ekki...kannski næst !  Smásýnishorn læt ég fljóta hér með á blogginu fyrir forvitna í sárabætur. Um kvöldið var svo slegið upp heljarinnar dinnerpartý og aðalbossinn mætti í kitcenið og dúllaði sér við að elda þennan líka hrikalega flotta en bragðvonda fisk sem hann skar niður í w.c pappírsþunnar ræmur...hafði foodmagasin meðferðis og gerði "eins og á myndinni" ...vel meint ..og ber að virða það.

Núlíðandi vika er kölluð "golden week" og er þá margt af litla fólkinu í  fríi og mikið um ferðalög. Rigningin tók sér líka frí ... heppilegt ! ... og skall á þetta líka majorkaveður - 27 stiga hiti  og sól í dag Smile ...mín skveraði sér med det samme úr gallanum og lagðist í "notalegt" sólbað sem breyttist innan 5 mínútna í hrikalegt svitabað...þoldi ekki við, enda sólin glóandi efst á himninum, eins og tunglið á kvöldin. Ákvað í staðinn að fara í menningarreisu með vinum mínum og skoða Miomuseum ... stórt, frægt og  gasalega sérstakt ( sami arkitekt og Luvre..örugglega vitlaust skrifað.. safnið í París ) . Okkur bent á af "góðu" fólki að  auðveldast væri að taka "kogenbussinn" ...sem við biðum  bara í 2 klst eftir  !! W00t...steinhætt að gera grín að  japanise womens með  sólarumbrellur.  Er við loks komumst á áfangastað, útbrunnin og næringarlaus settumst við á restaurant til að snæða...gleymdumst af þjóninum sem bað okkur innilega afsökunar  er hann loksins mætti með grænu tetertuna.  Áttum þó heila klst. til að skoða allt heila safnagillið áður en lokað var á nebbann á okkur.  Biðum  líka dágóða stund eftir kogenbussinum er haldið var heim á leið ... okkur þá  sagt  hann kæmi ekki !...tókum þá taxa með hanskaklæddum driver og borguðum á mann sem samsvaraði einu busgjaldi !!!!...reynslan kennir manni... oftast of seint!

Sem sagt dýrðarinnar dagur ....með von um vor í sinni !

Oyasumi nasaii 

 


Geishuskólinn

Lagði inn umsókn í Geishuskólann í Kyoto...sem er nú enginn venjulegur skóli. Langar að verða maiko ..þ.e. lærlingur sem tekur aðeins fimm ár. Ansi erfið þó er mér sagt - byrja 6 á morgnana að læra traditional söng (sem er nú frekar leiðingjarn), dans - án þess að detta - á mjög svo sérkennilegum fótabúnaði,  spilun á þriggjastrengja "gítar" ...að ógleymdri teserimóniu - þar er ég sterkust á svellinu. Á kvöldin eru það svo "partíin" þar sem  maður þjálfast í samræðusnilli við einmana kalla. þvílíkur  skemmtikraftur sem ég gæti orðið og eftirsótt..Laddi myndi blikna í samanburðinum. Verst er að þetta er púl frá kl 06 til miðnættis alla daga  og einungis einn frídagur á 3 mán. fresti !....fegin að hafa þjálfað þrælslundina  á þessum tveimur mán. hér á ceramiccentrinu í Shigaraki!! Heppin  líka að vera fit og í góðu formi  þar sem dressið sem ég þarf að bera  samanstendur af amk. þremur kimónóum og tveimur obium (stóru slaufunni á bakinu ) - vigtar um 7 kg ! Verst er að eftirspurnin er að minnka, menn virðast fremur  kjósa karokískemmtun sem er mjög "in" í dag eða bara fara á barinn til að spjalla...ekki skrýtið þar sem kostar um 80.000 yen á mann að fá alvöru geishu  með dinnernum , þ.e geiko ( child of the arts) en ekki  einhverja onsen mellu!   Geishufjöldinn í japan hefur hrunið úr 80.000 stk.  frá 1928 niður í 1000 í dag...hættuleg þróun !... Verð að hugsa málið betur.

Annað er líka að ég er sólarfíkill og samræmist það illa geishulúkkinu þar sem "föla facið" þykir mjög smart ! ...enda ganga japanskar konur með "regnhlífar" ...eða réttara sagt sólhlífar um leið og sú gula glennir sig. Hugsa sér ...annað hvort með regnhlíf eða sólhlíf...aldrei hægt að slaka á arminum. Sólhlífarnar eru vita skuld mjög krúttlegar með blúndum og freistandi að fjárfesta í einni slíkri ef sólin skildi nú skína á sautjándanum í sumar.  

 

Oyasumi nasai 

 


"stelpó" japan

Allt óskaplega stelpulegt í japan, bleikt og krúttaralegt...sennilega áhrif af cherryblossomunum sem eru í tugum tegunda í hinum ýmsu bleiku litum. Hér telst fullkomlega normalt að hafa sætin í rútunum nærbuxnableik og eins  og ég hef áður sýnt þá eru jafnvel röff skurðgröfur bleikar og fjólubláar....hugsa sér !. Leigubílstjórarnir eru lika í krúttlegu tískunni og klæða bílsætin með hvítum blúndum í stíl við hvítu hanskana sína. Já og mín sem hefur aldrei þolað bleikt hefur smitast af þessari væmni og er farin að nota bleikan leir..undarlegur litur á leir sem er sennilega hvergi til nema í þessu undarlega landi. Og það á bókstaflega að kæfa mann í væmninni ..einn japönsku gæjanna mætti með blúndusvuntu í studioið...án þess svo mikið sem afsaka sig ! ...ja heimur batnandi fer. Hann klæddi þo hausinn á sér í tusku eins og svo margir gera hér en hlutverk hennar er margvíslegt, s.s skýla sér fyrir sól, þurrka sér um hendur og af borðum ..og svo snýta sér ef þörf krefur. Sem sagt allt lítið og krúttaralegt...enda lítið pláss til umráða fyrir hvert stk. japana og fylgihluta þeirra. Rakst á lítinn sætan bíl um daginn sem átti ekki stærra herbergi en ég...skil ekki enn hvernig hann komst inn til sín ...má ekki muna hársbreidd !! ..tók mynd af honum sofandi sem þið getið spáð í. ..Og svo bleik blóm á veröndini hans !!

Oyasumi nasaii 

 


Fló á markaði

Þetta er 3 tilraun sem ég skrifa þessa bloggfærslu...hún þurrkast alltaf út svo nú eyði ég bara örskammri stund í hana. Vildi bara segja að ég fór á  flóamarkað um daginn í Kyoto sem fékk mér til að liða eins og fló á  Risamarkaði, villtist og ætlaði aldrei að rata út aftur!  Keypti kimóna á 1000 yen slikk..sem gera 700 kall ísl !!...bestu kaup ævi minnar , ..nýbúin að kaupa einn mun ljótari "út í búð" á 10.000 yen. Neyddist til að nota toilett staðarins sem var ákveðin áskorun..  tókst með herkjum  að miða á ljóta litla gatið í gólfinu án þess að renna sjálf ofaní...en þó ég noti bara skóstærð 37 þá rúmuðust þeir varla við hlið þess ! Annað en lúxussalernin sem eru víða..taka á móti þér brosandi , opna setuna án þess að hönd á snerti og ylja rasskinnunum svo rennslið verði ljúfara. Smástressandi tilhugsun þó hvernig skola á afurðunum niður, - aðeins 15 takkar  á vegg - á TÁKNMÁLI ...tekst samt á endanum...muna að punkta það niður hjá mér næst !

Annars var þessi flóamarkaður tengdur "temple" þar sem búddamunkar gengu um, fólk kyrjaði og henti peningum í dollur villt og galið , ásamt því að hringja stórum bjölluklukkum svo eftir  væri tekið. Mín kann nú svolítið fyrir sér í kyrjun og muldraði því í barm sér svo lítið bæri á ....skrýtið að  áðurnefnt toilett ( eða toire með japönskum framburði) er mér samt  mun minnistæðara frá þessum degi !! 

Oyasumi nasaii 

Oyasumi nasai 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband