Páskaegg með Páli pósti

Ég er svo rík af góðum vinum að það hálfa væri nóg. Ein vinkonan er þó alveg einstaklega, ótrúlega, dásamlega umhyggjusöm ...enda alin upp í Japan við góða siði (: Hún Berglind mín sem bjó hér í 7 ár fékk greinilega snilldarhugmynd. Í dag birtist einn af staffinu með þennan líka stóra PAKKA TIL MÍN inn á gólf í studíóinu !! ??...mér leið eins og 5 ára krakka á aðfangadagskvöd - fyrir matinn ... gat ekki beðið með að rífa hann upp og hentist þvi með hann á ljóshraða inn á herbergi. Viti menn.. var ekki líka þetta fína flotta PÁSKAEGG nr 5 frá Nóa Siríusi - UPPÁHALDIÐ mitt "ever" - mætt til Japans ! - búið að leggja á sig ferðalag yfir hálfan hnöttinn þetta grey, og eins og viðtakandi þess var það uppgefið og hreinlega i molum á endastöð ): ...en guð hvað því var vel tekið og verður svo sannarlega vel sinnt.
Í pakkanum var líka ofsalega flott "alvöru dökkt súkkulaði - handmade in Iceland" - líka í molum ! ... að sjálfsögðu eftir strangt ferðalag...sem betur fer, því er ég bauð uppá súkkulaðið inn í eldhúsi þá settust allir spenntir í hring við borðið, neituðu að bragða og byrjuðu að púsla - eins og í góðu fjölskylduboði hjá ömmu í den. Púslþrautin sem óbrotin hefði einungis tekið um 2 mín fyrir 5 ára - tók hátt í tvær klukkustundir með fimm fullorðnum... enda fínustu molarnir á stærð við einn fjórða af litlunögl ...og ég hafði étið einn. Þetta var hin mesta skemmtun og menn aldrei tekið sér svona langa matarpásu hér á bæ. Spurning um að ramma verkið inn og hengja á vegg !
Hlakka til á páskadag - þá verður meira púsl, er egginu góða verður tjaslað saman. Hér er ekki bannað að leika sér að matnum ...enda matur mannsins gaman í Japan.

Dauðlangar í hrökkbrauð - skildi það leggja í hnattferð ??

Þó ýmislegt sé gott hér í mat þá er alveg ótrúlega "óhollt úrval" af brauði ...einungis hvít og sætabrauð...gróft sérðu ekki ..og hrökkbrauð - hvað er nú það ?????? ......ekki skrýtið að maður sé komin með tregðu ): ...og 2 kg í ábót á skrokkinn á tveimur vikum...geri aðrir betur (:

oyasumi nasai
Helga


Aftur "viðbjóður" í dinner !

Fór aftur út að borða í kvöld, enda sunnudagur , ...og nú á staðinn þar sem gestir fara úr skónum. Sem betur fer vissi ég það og var vel undirbúin - fór í nýju ullarsokkana mína sem ég fékk senda frá Íslandi. Aftur var allt great nema hvað kolkrabbinn á disknum hefði mátt vera heima hjá sér,.. og ýmislegt annað fremur skrýtið, s.s brosandi síli sem ég vissi ekki hvort voru á lífi eða uppstoppuð - hefði betur gleymt gleraugunum heima. Félagar mínir borðuðu skammtinn minn með bestu lyst, og fegin var ég þegar kolkrabbakvikindið hvarf úr augsýn minni - var nærri því stærri en japaninn sem gleypti það !! Ég varð bara að vera svöng, því í forrétt hafði verið boðið upp á ungana hans. Venjulega eru "ungar" alltaf svo krúttlegir ...... en þetta voru sennilega unglingar enda bólugrafnir og hæðin um 5 cm !
Kokkurinn sem er keramiker í frístundum sýndi okkur þesssar líku fínu skálar sem hann hafði skapað með eigin hendi og brennt í viðarbrennsluofni ...sem þykir hin mesta virðing fyrir leirinn og gefur mjög svo sérstaka áferð - eins og í eld-eldgamla daga ! Ég vildi kaupa eina skálina - en nei það kom ekki til greina -"present for you" - sagði hann og brosti með gjafmildu hjarta sínu. Þeir eru alveg svakalega örlátir japanarnir.... en gott fyrir mann að vita að maður geldur gjöf með gjöf .....og þeirri gjöf verður svo svarað með gjöf ...og svo koll af kolli... þannig að við verðum væntanlega í gjafaskiptum þar til dvöl minni lýkur.
Venjulega eru það forvitnir túristar sem taka myndir af heimamönnum í þeirra juniformum ...en viti menn ein þjónustu"geisan" kom upp að mér - vanga við vanga - rétti vinkonu sinni símann sinn og bað hana að smella einni photo af okkur - ég skil ekki hvað var svona skrýtið við mig ( kannski af því að ég vildi ekki krabbakvikindin) ..en brosti og tók að sjálfsögðu líka photo af "skrýtnu henni" !
Draugalegt en gaman ( fyrst ég var ekki ein ) var að labba heim enda stór hluti leiðarinnar alveg óupplýstur ( alltaf verið að spara ) - nema af tunglinu sem er beint fyrir ofan hausinn á manni (:

Er að leka niður.. enda klukkan orðin 02 og ég vaknaði 06 í morgun,. ...held alltaf að ég verði bara 30 mín í tölvunni....en guð hvað hún bjargar mér blessunin , þar sem enginn er síminn !! (:

Góða nótt.
Helga


What a dinner !!

Fór út eftir sóletur - í fyrsta sinn í kvöld ...hugsið ykkur ! Ég og nokkrir aðrir skemmtilegir ætluðum á "alvöru fínan ( ferð úr skónum) sushi stað",...en þar var allt uppbókað svo við tókum frá table á morgun.
Röltum þá í leit að æti annarssataðar og duttum inn á þennan líka geðveikislega skrýtna stað þar sem "þrjár kynslóðir innan hele familien" stendur og kokkar ofan í gesti ( 10 manns - en bara 8 ef feitir ) ..þennan líka frábæra mat , m.a. risa aspas með einhverju delicious djúpsteiktu á endanum. Margir réttir, mikið spjall og öllu skolað niður með grænu te. Ég mundaði pinnana af miklu öryggi - tókst samt að sulla niður á borðið ...og var þá réttur gaffall og skeið - sem mér datt ekki í hug að nota ! Öllu góðgætinu síðan skolað niður með grænu te, ...annars máttu líka drekka bjór eða saki með matnum - oj - ég kaus teið.
Restaurantinn líktist helst sæmilega stóru íslensku unglingaherbergi þar sem ægir saman alls kyns drasli, sjónvarpi, græjum og fötum á við og dreif - allt mjög heimilislegt, og ættarhöfðinginn kveikti sér í sígarettu og horfði á japanska sápuóperu meðan við borðuðum. Sem sagt "everything very special and great" ... þar á meðal verðið sem var 800 ísl kr. á mann ,..og innfalið var skutl heim að dyrum af sjálfum ættarhöfðingjanum.
Pottþétt sem ég fer þarna aftur.

P.s
Langar að vera hérna lengi, lengi - allt svo æðislegt ...nema þá helst kaffi latteið hér í bæ,...þeir ( japanarnir) hella sjóðandi mjólk út í kaffið - saup á stórri mjólkurskán - náði að stoppa gubbuna af, ...og engin froða !! ):
...þeir sem mig þekkja vita hvað ég þjáist.

Heyrumst
Geisan


Temeistari - framtíðarstarf mitt ?

Svei mér þá ef ég verð ekki orðin fræg í Japan eftir smá æfingu í viðbót ! Í gærkveldi var mér rétt það sem til þurfti til að blanda "eðal - alvöru TE" ,...og þá meina ég skærgræna púðurblöndu, undurfagran písk úr bambus, heitt vatn (ekki láta sjóða) og alvöru tebolla ( tekur hálfan líter ! ) sem einn japansgæinn rennir hér úr leir. Hann blandaði svo te fyrir mig með þessum græjum og svo átti ég að "gera eins" fyrir hann ...hm!! Mér leið eins og ætti að afmeyja mig ....en viti menn mér tókst glæsilega upp með pískinn - gerði þetta líka freyðandi græna te ..og japanarnir bara göptu - og vildu slá mig til meistara. Þykir voðaflott að vera japanskur temeistari, ....vonandi betur borgað en hjúkku- og artistastarfið.
Mér er líka orðið svo tamt að bugta mig og beygja í allar áttir, snúa skálunum á alla kanta ,...skálarnar eiga að vera óreglulegar ( ekki þó ólögulegar ) i formi og þú snýrð þinni skál með báðum höndum og 100% athygli.. þar til þú finnur þá hlið sem þér þykir sætust, þá máttu súpa á .......í algjöru algleymi ...ef algleymi er til !!!

Á morgun fer ég aftur í sturtu og í betri fötin. Tilefnið er opnum keramiksýningar þýsks manns sem hér er staddur. Sýningin verður í flotta nútímalistasafninu á hæðinni hér fyrir ofan sem hefur verið lokað til þessa.
Þarf ekki að taka hjólið - bara labba upp 300 tröppur !! :)
Hlakka mikið til að sleppa út - og skvetta úr klaufunum,.....eins og kýr að vori !!

Oyasumi nasai..sem þýðir góða nótt

Gegga geisa


Sexý gröfur

Mikið eru þær sætar gröfurnar hér í götunni - FJÓLUBLÁAR OG BLEIKAR (sjá mynd) .....Sverrir minn yrði alveg sjúkur ef hann sæi þær !! Já sinn er siður í landi hverju, hér eru bleikar gröfur, fólk gengur á strætum úti með maska fyrir vitum - án þess að fíla sig fábjána, ...og svo þykir virkilega dónalegt að sötra ekki duglega á núðlusúpunni sinni.
Ég er orðin nánast eins og innfædd með prjónana - gæti gripið grjón á lofti á góðum degi !!.... var nærri búin að kaupa mér ferðaprjónasett í gær ....agalega hentugt !
Ég komst í alsælu í dag er ég uppgötvaði kaffihús/restaurant hér upp á dásamlegu hæðinni fyrir ofan mig... þangað get ég skotist í vinnugallanum - setið úti og sötrað mitt kaffilatte - og horft á geðveikislega flott útsýni (:
Hér eru líka hollt og hæðir þakin listaverkum sem er hreint himnaríki fyrir mig.
Bendi ferðalöngum framtíðarinnar á að hér tekur enginn creditcard - just cash....og er ég fór í hraðbanka í dag þá gat ég einungis fengið 10.000 yen í einni úttekt sem samsvarar rúml.6000 kr í isl.- og borga 1000 yen fyrir hverja úttekt !!! Þó japanir steli aldrei þá er þetta nú ekkert nema hreinn þjófnaður !! ): ....en enginn er fullkominn.
Keypti mér ALVÖRU KODDA í dag - loksins er ég var farin að venjast grjónakubbnum. Ætla nú að vígja hann með sæmd (:

Good night/oyasumi nasai/góða nótt

Gegga geisa


Þú kyssir ekki Japana !

Já það var mikill matur og mikið gaman í dinnerpartýinu hér í gær. Tilhlökkunin áður var mikil og ekkert til sparað að gera sig sæta fyrir geymið (: ...vígði sturtuna og skellti mér í betri fötin - setti á mig bæði vara- og kinnalit - breytti þrælalúkkinu í geisulúkk (almost).
Þarna var mættur mjög svo krúttlegur kall á sjötugsaldri sem er einn af yfir-yfirmönnum hér ( köllum hann til hagræðis hér Smokkí) Hann rétti öllum þetta líka viðbjóðslega kvikindi í forrétt ( sést vonandi á mynd ) sem maður átti að bíta í ásamt staupi af sérinnfluttu (af internetinu ) eðal-saki (hrísgrjónavín) sem átti að skola kvikindinu niður með ): Þar sem ég vildi ekki vera neinn aumingi - enda fulltrúi minnar þjóðar - þá beit ég í þennan smokkfisk sem var þurrkaður, hrár og eins og hart gúmmí undir tönn- lokaði augunum á meðan og hugsaði um harðfisk ....- góður guð -takk fyrir ísland!! Ég gerði einungis saklausa tilraun með táknmáli er ég vildi vita hvort fiskurinn héti smokkfiskur, mælti condom með spurnarsvip og leit niður í klof...enginn skildi neitt og ég ákvað að ganga ekki lengra í þetta sinn. ( N.B. fiskurinn var á stærð við extralarge condom í notkun )
Allt annað var bara verulega djúsí og gott en ég þakka óbragðinu á sakiínu að ég var ótimbruð daginn eftir. Annars buðu þeir líka upp á Abcent sem var ofsalega flott því það drukku alvöru listamenn í París í den.

Ég hef áður talað um hve japanarnir eru mállausir í enskunni - svo öll samskipti ganga afar hægt - tekur um 15 mín að átta sig á hvað hinn vill tala um áður en hann kemur sér svo að pointinu- sem tekur 20 mín.
Smokkí var orðinn nokkuð hreifur og brosti stanslaust á japönsku og gekk milli manna. Hollenska konan hér var líka mjög glöð ( samt edrú og yfir sextugt )...hún gerði sér lítið fyrir og faðmaði kallinn og kyssti á báðar - jarðsprengja féll - samlandar hans hrópuðu NO KISS NO KISS ...og ákkurat á sama augnabliki sté eiginkonan inn úr dyrunum að sækja Smókkí sinn !!!!
Eitt sem nauðsynlegt er fyrir okkur hina að vita er að í Japan FAÐMAST FÓLK EKKI OG ÞAÐ ER DAUÐASYND AÐ KYSSA EINHVERN nema í keleríi.
Sagan er ekki lengri nema Smokkí vildi ekki fara en eiginkonan sem var líka mikið krútt, pínulítil, bogin í baki með prjónahúfu á hausnum sem hún nánast hvarf öll undir - þvílíkt par ! .....hún lét ekki undan og tók kallinn heim frá þessu útlenska kossaflensi.

Já mikið gaman- mikið gaman (:

kv. Helga

p.s. verðið að afsaka endalausar enskuslettur - verð að nota öll moment til að æfa mig (:


Enginn þjófur í Japan

Hér eru allir meira og minna workaholicar líkt og ég og þykir gott ef tekin er stutt matarpása tvisvar á sólarhring- og kannski pissað í leiðinni ef tími gefst. Eitthvað varð að gera í þessu svo ég stakk upp á dinnerpartýi á sunnudag -elda saman og hafa gaman - og auðvitað beita bodylanguage yfir borðum - gengur miklu betur þegar menn eru hreifir. Þessu var vel tekið og því varð ég að fara úr vinnugallanum loksins - (sef m.a. í hluta af honum vegna skorts á hlýjum fötum) og gera mér bæjarferð og versla. það er langur vegur í supermarkaðinn svo ég fékk lánað hjól, en þau eru til taks fyrir gesti hér. Ég brunaði af stað- bara 11 ár síðan ég hjólaði síðast en það sannaðist að; ef Helga lærir einu sinni að hjóla -kann hún alltaf að hjóla. Ég parkeraði hjólinu fyrir utan supermarkaðinn og skildi það eftir ólæst- það er svo merkilegt að hér í Japan er ENGU STOLIÐ!! Verslanir sem hafa vörur úti við, t.d. ýmsa skrautmuni og húsgögn úr leir þurfa ekki að hafa fyrir því að taka þær inn á nóttunni !! Þetta er svo dásamlegt við japani - þeir eru svo vel upp aldir; heiðarlegir, snyrtilegir -hægt að sleikja göturnar ( sá einn slá af sígarettunni i poka sem hann hélt á ) og yndislega hjálplegir - þvílíkt sem ég og fleiri getum lært af þeim.
Eins og ég hef áður nefnt eru allar merkingar á vörum hér á táknmáli (fyrir japani), og tók það mig ekki nema u.þ.b. 3 klst að finna eitthvað ætilegt sem ég var ekki hrædd við...annars er allt rosalega djúsi og freistandi (nema ormarnir í kæliborðinu, mér er sagt að þetta séu síli -en lookið er viðbjóður) og ég sem er haldin valkvíða var í mestu vandræðum því karfan á hjólinu tekur engin ósköp - var því alltaf að skipta út úr innkaupakörfunni.

Leiðin heim var upp í móti - nú hefndist mér fyrir að mæta ekki í ræktina síðustu fjóra mánuði ): ...en þetta tókst og viti menn er ég kom í hlað var þar ein lítil krúttleg gömul kella úr staffinu sem talaði og malaði japönsku eins og ég væri innfædd og yfirgaf mig ekki fyrr en hún var búin að finna hjólastæðið fyrir mig fylgja mér inn og endurraða öllu í hillunni minni í ísskápnum !!! (:

Mátaði spennt þykkar joggingbuxur í medium sem ég splæsti á mig í supermarkaðnum - hugsaði þær góðar sem vinnubuxur - gleymdi að hugsa í japönskum stærðum - þær ná upp fyrir haus og líkjast mest svefnpoka í sniðinu - engin furða að þær voru nánast gefins !!

Þá er að henda sér á grjónakubbinn
Oyasumi nasai ....sem þýðir; góða nótt
Helga


Tungumálareddingar

Já það er sko gaman í studióinu. Nú kom nágranni minn japaninn góði sem kann nærri ekkert í ensku og spurði mig um menntun. Ég sem er m.a. ljósmóðir ( hann skildi ekki orðið midwife) lék af innlifun fæðandi konu og líka þá sem tók á móti barninu ( gat sleppt barninu ) - rúllaði þar með upp tveimur hlutverkum - og hann skildi nákvæmlega.
Augu hans urðu að undirskálum er hann fékk að vita að ég hefði hjúkrunarmenntun, ljósmóðurmenntun og LÍKA myndlistarmenntun. Hann endurtók hvað eftir annað "sokko" "sokko" en ég skildi náttúrulega ekki baun svo hann kallaði þetta hátt og skýrt yfir allt, benti á mig og bað um hjálp við þýðinguna....nokkrir kóreubúar og japanir voru nú komnir við borðið mitt en enginn gat þýtt þetta sokkaorð almennilega. Þá varð hann sér úti um tölvuþýðara ( veit ekki hvað þetta apparat heitir - hef aldrei séð það fyrr- en það virkar ) pikkaði heillengi á það og þá kom það loksins ; "admire" "admire" benti á mig og bros hans náði til augnanna. Segið svo að það sé ekki gaman í vinnunni.
Já mér finnst svo sannarlega frábært og fíla alveg í botn að artistast (nýyrði ) nákvæmlega eftir mínu höfði (: - í svona góðra manna hóp.

Þessar vinnubúðir eru þó að breytast í þrælabúðir - verð að skreppa út og skoða bæinn á morgun, hef hangið - inni síðan fyrsta daginn og endurtekið rúntinn; eldhús-studíó-svefnstæði-eldhús... - í 5 daga - er ekki í lagi með mig ??

Góða nótt... Helga


Svör til kennarans o.fl.

Hér kemur raforkan meira en 50% frá kjarnorku og restin úr kolum og vatnsorku. Hiti hér er um frostmark og jafnvel undir, snjóaði í dag!!! sem gerist aldrei á þessu svæði segja heimamenn.......hefði aldrei átt að gefa lopapeysuna mína í rauðakrossinn áður en ég lagði í hann. Er svo lítill ferðalangur að ég held alltaf að það sé sumar í "útlöndum".
Nú held ég mig innandyra og vinn út í eitt á studióinu .....til 22 á kvöldin ..enda er þar einna hlýjast þó þar byrji að kólna eftir kl 20 því þá taka þeir hitann af. Hér er heldur ekki mikið bæjarstuð eins og í Reykjavík, .... hef ekki fengið kaffi latte síðan í Kyoto á sunnudag ...nokkuð viss um að ég verði að lifa á þeim draumi næstu tvo mánuði.
Yfir vetrartímann er margt lokað hér t.d. galleríin.

Það eru ekki margir listamenn hér eins og stendur..miklu fleiri í staffinu enda er þetta gríðarstórt svæði með ruglingslegum byggingum og 100 hurðum svo ég prófa oft um 80 áður en ég ramba um þá réttu....rétt næ eldhúsið áður en sulturinn drepur mig. (setti inn mynd af svæðinu)
Hér eru aðallega japanir og kóreubúar, þó er ein finnsk og ein amerísk (þær tala ensku guði sé lof). Staffið talar aðallega japönsku og dálítið í bodylanguage sem ég er dugleg að kenna. ALLAR upplýsingar ALLSTAÐAR um allan bæ eru á táknmáli (þó ekki heyrnarlausra) meira að segja á kortinu sem sem við "útlendingarnir fengum af svæðinu " !!

Nágranni minn í studíóinu er japanskur karlmaður á miðjum aldri...örugglega ríkur og örugglega mjög frægur því hann er með tvo aðstoðarmenn, og fær 4x meira vinnupláss en við hin. Hann byggir úr leir nokkurra metra háar furðuskepnur og spurði mig er hann sá verkin mín hvort ég væri að gera model af fyrirhuguðum verkum....ég hef nú ekki alltaf kunnað mér svona hóf (: ....bara ef flutningskostnaðurinn væri ekki svona dj.hár !
Maðurinn talar enga ensku en færir mér af og til súkkulaðimola með brosi sem nær til augnanna. Í dag kom hann sem oftar með einn dökkan, staldraði nú við sem var nýtt og hrósaði verkunum mínum , sagði "exellent" og "very interesting ! "....ég náði þessum þremur orðum - varð náttúrulega rosa ánægð og á morgun gef ég honum Tópas.

Jæja þá er kominn tími að halla sér á grjónakubbinn ): ææ ....þyrfti að fara í bæjarferð og kaupa alvöru kodda.


Rafmagn í skömmtum

Gleður mitt hjarta hvað fólk er duglegt að svara, samskipti hér eru að mestu á bodylanguage a.m.k. við japanina og Kóreubúana. Þó eru tveir hér á bæ sem tala ensku og bjargar það félagsþörf minni frá skrælnun.
Fór í verslunarleiðangur með einum starfsmanna í dag að versla leir og aðrar nauðsynjar fyrir drullumallið - kom sér vel að vera góð í bodylanguage og gott að fá að æfa sig í þolinmæði - það sama á væntanlega við um hann (:

Nú sit ég við tölvuna í stað þess að leira því þeir ( þ.e. japanarnir, samkv. ferðahandbókinni minni eru það alltaf "þeir og hinir" fyrir þeim- líkt og vestmannaeyingar greina sig oft á tíðum frá öllum öðrum ) taka rafmagnið af studióunum á kvöldin - spara þessa gersemi sem við spreðum í allar áttir ! Sá samt að sumir gátu krækt sér í aukalampa og ég ætla að reyna slíkt hið sama á morgun þar sem ég er soddan (sorry málfarið ) workaholic. Ég er líka orðin úthvíld eftir að hafa sofið 14 klst. í einum dúr fyrstu nóttina hér á Shigaraki - þvílíkt sem ég var hissa - hélt lengi að úrið sneri öfugt og ég hefði farið á fætur kl 04 að nóttu - háttaði mig því aftur en sem betur fer fór sellan uppi í gang og upp ég reis um síðir. Þá dreif ég mig í þennan fína göngutúr áður en myrkrið skall á og sá hvað svæðið hér er meiriháttar - allt þakið listaverkum um hollt og hæðir og útsýnið dásamlegt.
Myndin sem fylgir nú er af kynjadýri Shigaraki sem kallast Tanuki og líkist brosandi birni en þó í ýmsum sérkennilegum útgáfum. Honum fylgir mikil gæfa og velgengni sem ég nýt nú til fulls (:

Berglind mín. Verð að leiðrétta þig með maskana. Allir japanir sem ég hef spurt og eru þeir margir segja skýringuna vera frjóofnæmi....sennilega er það orðið mun algengara nú en í den.
Annars verð ég að segja að hér er allt morandi af þér - af báðum kynjum. Fólk sem býður fram aðstoð sína brosandi - svo langt út fyrir allar væntingar (: Spurning hvort þú kenndir þeim eða þeir þér á sínum tíma ..en það skiptir ekki máli meðan við hin njótum góðs af (:

Hér er sem sagt allt frábært nema ansk. kuldinn. Ég hugsa mikið til allra hlýju peysanna sem ég skildi eftir ):
Er að reyna að kría út peysu hjá einhverjum góðviljuðum, en peysurnar eru eins og rafmagnið - ekki í boði.
Bless í bili....H


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband